1.
Kem ég enn af köldum heiðum
kæra fljóð, til þín.
Frerasvip á fannabreiðum
fengu stefin mín.
Ég hef reikað eftir ísum
allan veg til þín
til að kveikja von með vísum.
Var nú þörfin brýn.
Hríðarvöldin vetrarríku
villtan tróðu dans;
von að köld í veðri slíku
væru ljóðin manns.
Blik frá rauðum ástareldi
eftir nauðir mér
sumarauðugt sólarveldi
síðan bauð hjá þér.
Ástin meðan öllu réði
okkar geði hjá
allt var kveðið eins og gleði
entist héðan frá.
2.
Til ei lætur tíðin mér
trúrri sætu velja hér
ljóðin fríðu breidd á blað,
bagar stríðið daglegt það.
Margt að snasar manni þeim
mæðu flas um víðan heim,
sem í dagan æsku ær
á forlaga sjóinn rær.
Ormar gnaga illir þar,
yfir dragast banvænar
eldrigningar óyndis,
afleiðingar gæfuslys.
Hyrjar baldinn byrinn þver,
byrjar aldrei fyrir grér
drafnar hænu hafnar því
hafnir mænir stafninn í.
3.
Úr mansöng 1. rímu.(ferskeytt)
Fjöll í austri fagurblá
freista dalabarnsins.
Ungur fylgir æskuþrá
upp til jökulhjarnsins.
Sveimað heimahögum frá
hef ég vors á degi,
víða stíða þræddi þá
þunga hraunavegi.
Heiðin breiða hugumkær
hvetur viljann ofar.
Leiðin seiðir, fráum fær,
fögrum sýnum lofar.
Gangan sækist öruggt enn
urðarróti móti.
Einatt hlutu heiðamenn
höggvinn fót á grjóti.
Hver, sem ofar á að ná,
einskis metið getur
þótt í fangið fái sá
fjúk og hretið betur.
Anda heitum yndi nóg
unaðsreitir geyma.
Seinna leitar þráin þó
þinna sveita heima.
4.
Slær á hafið himinblæ,
hyllir undir dranga,
geislum stafar sól á sæ,
signir grund og tanga.
Út með sænum einn jeg geng,
að er hrannir falla,
heyri’ í blænum hörpustreng
hafmeyjanna gjalla.
Við þann óminn eyk jeg spor
út við svarta dranga;
það eru hljómar þínir, vor,
þeir til hjarta ganga!
(Blessað vertu og velkomið,
vorið yndisbjarta,
þú, sem allt af fró og frið
fyllir sjerhvert hjarta!)
5.
Hugann seiða svalli frá
sundin, heiði og skörðin;
vona-leið er valin þá
vestur Breiðafjörðinn.
Alt er borið burtu gróm
bæði af Skor og fjöllum,
því að vorið blóm við blóm
breiddi í sporum öllum.
Dægur-halli daggperlum
dreifir vallargróðann;
bjargastalla beltast um
blessuð fjallamóðan.
Þrjóti grið á þessum stað,
þá er lið að skeiðum,
því að hlið er opið að
úthafsmiðum breiðum.
6.
Ég er að horfa hugfanginn
í hlýjum sumarblænum
yfir litla lækinn minn,
sem líður fram hjá bænum.
Ó, hve marga æskustund
áður hér ég dvaldi,
saklaust barn með létta lund,
og leggina mína taldi.
Bæ ég lítinn byggði þar
og blómum utan skreytti.
Yfir tún og engjarnar
oft ég læknum veitti.
Nú er ekkert eins og fyr;
á öllu sé ég muninn:
löngu týndir leggirnir
og litli bærinn hruninn.
Æska hverfur. Yndi dvín.
Allt er líkt og draumur.
Áfram líður æfin mín
eins og lækjarstraumur.
Meðan æðum yljar blóð
og andinn má sig hræra,
skal ég syngja lítil ljóð
læknum silfurtæra.
Þegar eg er uppgefinn
og eytt hef kröftum mínum,
langar mig í síðsta sinn
að sofna´ á bökkum þínum.